Strætó er þjónustufyrirtæki á sviði almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu. Gildin sem Strætó starfar samkvæmt eru: Samvinna, áreiðanleiki og drifkraftur. 

Fræðslumál hjá Strætó eru lykilþáttur í því að tryggja öryggi, fagmennsku og góða þjónustu. Með markvissri fræðslu eykst þekking og færni sem eykur öryggi, starfsánægju og frammistöðu. Markmið okkar er að skapa vinnustað þar sem allir geta þróað hæfni sína og tekið virkan þátt í starfseminni, óháð bakgrunni.

Með öflugri fræðslu viljum við viðhalda og efla öryggi í starfsemi okkar, styðja við starfsfólk og tryggja að störf hjá Strætó séu virðisaukandi fyrir starfsfólk okkar og fyrirtækið. Jafnframt er markmið okkar að skapa eftirsóknarverðan vinnustað þar sem fjölbreytileiki, inngilding og fagleg samvinna eru ávallt í fyrirrúmi.

Þarfagreining fræðslu er unnin árlega og tekur mið af stefnu fyrirtækisins, niðurstöðum starfsmannakannana og ábendingum farþega, ásamt þeim áherslum sem eru í forgrunni innan fyrirtækisins hverju sinni. Sú greining mótar fræðsluáætlun ársins og tryggir að fræðslan sé bæði markviss og í takt við þarfir starfsfólks og reksturinn í heild sinni.

Strætó vinnur einnig að því að fræðsla og þjálfun nái til þeirra akstursaðila sem sinna akstri fyrir fyrirtækið. Með því tryggjum við samræmt þjónustustig, aukna hæfni og sameiginleg viðmið um fagmennsku, óháð því hverjir sinna akstrinum.

Markmið okkar er að allir farþegar upplifi öryggi, góða þjónustu og jákvæða upplifun þegar ferðast er með Strætó.

Hér að neðan má finna helstu áherslur Strætó í fræðslu- og þjálfunarmálum.


Íslenska sem leiðandi tungumál

Strætó leggur sérstaka áherslu á að styðja íslenskunám starfsfólks af erlendum uppruna. Allt starfsfólk hefur aðgang að Bara tala, appi sem leggur áherslu á talmál þar sem hægt er að læra og æfa sig í framsögn á íslensku, í aðstæðum sem tengjast bæði starfi og daglegu lífi.

Auk þess hvetur Strætó starfsfólk til að sækja íslenskunámskeið utan vinnu þegar það er mögulegt. Við bjóðum upp á sveigjanleika í vöktum til að auðvelda þátttöku og styðjum þannig við markmið starfsmanna um að þróa hæfni sína.


Endurmenntun atvinnubílstjóra

Allir vagnstjórar Strætó sækja reglubundna endurmenntun í samræmi við námskrá Samgöngustofu um endurmenntun atvinnubílstjóra. Námskráin kveður á um að bílstjórar sæki 35 stunda endurmenntun, á 5 ára fresti, og er það skilyrði til viðhalds ökuréttinda. Endurmenntunin miðar að því að:

  • viðhalda og efla öryggi í akstri
  • styrkja faglega hæfni
  • tryggja góða þjónustu og jákvæða upplifun farþega
  • auka forvarnir og færni í að bregðast við óvæntum aðstæðum
  • styðja vagnstjóra í að fylgja lögum og reglum sem gilda um akstur í atvinnuskyni

Samkvæmt námskránni, sem staðfest var 3. febrúar 2025, skal endurmenntun atvinnubílstjóra byggja á þremur meginþáttum: umhverfi, lögum og reglum og öryggi.

Strætó býður vagnstjórum sínum upp á fjölbreytt námskeið í samræmi við þessar kröfur og leggur mikla áherslu á fagmennsku og símenntun. Með reglulegri þjálfun tryggjum við faglega hæfni, öryggi og áreiðanlega þjónustu.


Nýliðaþjálfun hjá Strætó

Strætó leggur mikla áherslu á að taka vel á móti nýju starfsfólki. Nýliðaþjálfun er því mikilvægur þáttur í því að efla starfsöryggi og frammistöðu og stuðla jafnframt að jákvæðri upplifun af vinnustaðnum frá fyrsta degi. Allt nýtt starfsfólk hjá Strætó fær fræðslu og þjálfun sem er sérsniðin að þeirra starfi og verkefnum. Með því er tryggt að starfsfólk fái nauðsynlegar leiðbeiningar og stuðning til að starfa af öryggi og fagmennsku.

Nýir vagnstjórar hjá Strætó njóta jafnframt leiðsagnar reyndra mentora, þar sem lögð er áhersla á verklega þjálfun, öryggismál og þjónustu við farþega. Þannig tryggjum við að enginn vagnstjóri fari út í umferðina undir merkjum Strætó án þess að hafa fengið fullnægjandi þjálfun sem uppfyllir kröfur um öryggi og fagmennsku.


Þjónustunámskeið

Strætó leggur áherslu á að veita farþegum áreiðanlega og jákvæða þjónustu og hefur því haldið þjónustunámskeið fyrir starfsfólk sitt í akstri og þjónustuveri. Á námskeiðunum er lögð áhersla á fagleg samskipti, lausnamiðaða nálgun, öryggi og hvernig best sé að skapa jákvæða upplifun fyrir farþega í fjölbreyttum aðstæðum.

Markmiðið með þjónustunámskeiðunum er að auka þjónustustig, efla skilning á þjónustuþegum fyrirtækisins, styrkja samskiptahæfni og bæta öryggi, ásamt því að samræma vinnubrögð sem endurspegla gildi Strætó: samvinnu, áreiðanleika og drifkraft.


Competence+ - samstarfsverkefni á vegum Erasmus+

Strætó leiðir um þessar mundir annan fasa af alþjóðlegu verkefni sem snýr að fræðslu og þjálfun í almenningssamgöngum. Markmið verkefnisins er að auka hæfni vagnstjóra til að takast á við krefjandi aðstæður í daglegum störfum. Í verkefninu hefur verið þróuð fræðsla þar sem fjölbreyttar kennsluaðferðir eru nýttar, þar á meðal netnám, hópavinna og vinnustofur. Að auki hefur hluti námsefnisins verið þróaður í sýndarveruleika, sem gefur þátttakendum dýpri sýn á viðfangsefnið og tækifæri til að þjálfa þekkingu og viðbrögð í raunhæfum aðstæðum.

Í núverandi fasa verkefnisins er lögð sérstök áhersla á fjölbreytileika og inngildingu sem grunni að góðri þjónustu, aðgengi farþega og líðan starfsfólks. Með því að efla skilning og samskiptafærni stuðlar verkefnið að öruggara, mannúðlegra og faglegra starfsumhverfi í almenningssamgöngum.

Competence+ er styrkt af Evrópusambandinu og að því koma þátttakendur frá Íslandi, sem leiðir verkefnið, ásamt Þýskalandi, Danmörku, Lettlandi, Kýpur, Króatíu og Spáni.