Öflug persónuvernd er Strætó kappsmál og leggur byggðasamlagið mikla áherslu á að virða réttindi einstaklinga og að öll meðferð persónuupplýsinga sé ávallt í samræmi við lög nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga (hér eftir „persónuverndarlög“).

Strætó bs. er byggðasamlag í eigu sveitarfélaganna sex á höfuðborgarsvæðinu sem stofnað var í samræmi við ákvæði IX. kafla sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 um samvinnu sveitarfélaga við framkvæmd einstakra verkefna. Meginhlutverk Strætó er að starfrækja almenningssamgangnaþjónustu á svæði eigenda sinna.

Hjá Strætó er unnið með persónuupplýsingar í tengslum við rekstur og þjónustu byggðasamlagsins. Í því sambandi er einkum unnið með persónuupplýsingar starfsumsækjenda, starfsmanna, viðskiptavina auk samstarfsaðila, birgja, verktaka og einstaklinga sem eru í forsvari fyrir lögaðila sem eiga í viðskiptsambandi við byggðasamlagið.

Með persónuverndarstefnu þessari er greint frá því hvernig Strætó bs., kt. 500501-3160, Hesthálsi 14, 110 Reykjavík (hér eftir „Strætó“ eða „við“ ), stendur að vinnslu, s.s. söfnun, skráningu, vistun og miðlun persónugreinanlegra upplýsinga um einstaklinga (hér eftir einnig „þú“). Sú vinnsla persónuupplýsinga sem fer fram á vegum Strætó er á ábyrgð Strætó bs.

Í þeim tilvikum þar sem Strætó vinnur með persónuupplýsingar fyrir hönd annars aðila ber sá aðili ábyrgð á vinnslunni sem ábyrgðaraðili í skilningi í persónuverndarlaga, og starfar Strætó þá samkvæmt fyrirmælum hans á grundvelli vinnslusamnings.  Strætó er vinnsluaðili þeirra upplýsinga sem unnið er með í þágu PANT-akstursþjónustu. Þannig er Strætó vinnsluaðili fyrir þau sveitarfélög sem standa að sameiginlegri ferðaþjónustu fatlaðs fólks á höfuðborgarsvæðinu. Frekari upplýsingar um vinnslu persónuupplýsinga í þágu PANT-akstursþjónustu er að finna í fræðslubréfi um vinnslu persónuupplýsinga PANT sem er aðgengilegt á vefsíðum Strætó: www.straeto.is og www.pant.is.

Persónuverndarstefna þessi nær til viðskiptavina og annarra þjónustuþega Strætó. Yfirlýsing þessi nær einnig eftir atvikum til annarra einstaklinga, t.d. þeirra sem eiga í samskiptum við Strætó og þeirra sem heimsækja skrifstofur og heimasíður Strætó. Þá nær persónuverndarstefnan einnig til tengiliða viðskiptamanna, birgja, verktaka, ráðgjafa, stofnana og annarra lögaðila sem Strætó er í samningssambandi við.

Um vinnslu á persónuupplýsingum starfsumsækjenda, starfsmanna Strætó, og starfsmanna verktaka Strætó sem sinna akstri er fjallað í sérstökum fræðslubréfum.

 

Sértækar persónuverndarstefnur kunna að gilda um einstakar þjónustur og viðmót Strætó, sem birtar eru á vef Strætó og eftir atvikum í viðkomandi viðmóti. Um nýtt greiðslukerfi Strætó, KLAPPIÐ, gildir sérstök persónuverndarstefna sem nálgast má www.klappid.is.

Persónuverndarstefna þessi fjallar einkum um vinnslu persónuupplýsinga þegar einstaklingar:

 • stofna til viðskipta við okkur
 • stofna til viðskipta við okkur fyrir hönd lögaðila sem þeir eru í forsvari fyrir
 • sækja og nota Strætó-appið
 • panta vörur eða þjónustu hjá okkur
 • hafa samband við okkur, hvort sem það er í gegnum bréfpóst, tölvupóst, vefsíðu eða samfélagsmiðla
 • eiga í samskiptum við okkur fyrir hönd lögaðila vegna viðskiptasambands
 • heimsækja heimasíður okkar, straeto.is, www.klappid.is, www.pant.is, eða samfélagsmiðlasíður okkar
 • heimsækja skrifstofur okkar
 • hringja í þjónustuver okkar
 • ganga inn á svæði sem vöktuð eru með rafrænum öryggismyndavélum
 • nota þráðlaust net strætisvagna