Föstudaginn 15. mars 2024 var haldinn fundur í stjórn Strætó bs. og hófst hann kl. 7:30.


Mætt voru: 

  • Magnús Örn Guðmundsson (MÖG)
  • Andri Steinn Hilmarsson (ASH) – í fjarfundi
  • Lovísa Jónsdóttir (LJ)
  • Kristín Thoroddsen (KT) – í fjarfundi
  • Hrannar Bragi Eyjólfsson (EBH)
  • Alexandra Briem (AB)

Fundinn sátu einnig Jóhannes S. Rúnarsson (JSR), framkvæmdastjóri sem ritaði fundargerð og Elísa Kristmannsdóttir, fjármálastjóri.


1. Drög að óendurskoðuðu ársuppgjöri 2023

Elísa Kristmannsdóttir, fjármálastjóri fór yfir drög að ársuppgjöri. Endurskoðandi félagsins stefnir á að klára endurskoðun fyrir páska og leggja fyrir endurskoðunarnefnd og stjórn til samþykktar á næsta stjórnarfundi, sem er 4. apríl.

Tekjur ársins er á áætlun og jukust um 18% milli áranna. EBITDA er jákvætt um 238 m.kr. Rekstur vagna heldur áfram að hækka vegna hækkandi aldurs vagna. Óreglulegir liðir eru upp á tæpar 200 m.kr. vegna lífeyrissjóðsmála og gjaldfærslu vegna dómsmáls frá 2010. Tap ársins er um 180 m.kr.


2. Lífeyrissjóðsmál

Strætó fékk í síðustu viku bréf frá lífeyrissjóðnum Brú, dagsett 11. desember þar sem vegna tryggingafræðilegrar stöðu sjóðsins muni sjóðurinn innheimta mánaðarlega vegna hóps sem kominn var á lífeyrir 1. júní 2017 og orðnir 60 ára á þeim tímapunkti. Sjóðurinn hefur reiknað út hluta þeirrar skuldbindingar sem tilheyrir Strætó, er hún upp á um 70 m.kr. Eftir á að greiða úr hópi starfsmanna sem lentu á kennitölu annars launagreiðanda hjá sjóðnum. Stjórn lífeyrissjóðsins óskaði eftir yfirlýsingu frá Strætó um leiðréttingu hjá þeim sjóðsfélögum vegna tímabilsins 1. júlí 2001 – 31. desember 2023.

Stjórn fól framkvæmdastjóra í samráði við lögmann félagsins að ganga frá yfirlýsingunni.


3. Staða öryggismála

Framkvæmdastjóri fór yfir yfirlit yfir öryggismál hjá Strætó.


4. Auglýsingamál

Framkvæmdastjóri fór yfir tilboð frá Dengsa, sem óskað var eftir vegna sölu auglýsinga utan á  og innan í vögnum.  Ákveðið að breyta ekki núverandi fyrirkomulagi þar sem ekki var séð að nýtt fyrirkomulag skapaði Strætó auknar tekjur.


5. Ársfundur Strætó

Stjórn fól framkvæmdastjóra að undirbúa ársfund Strætó vegna ársins 2023.


6. Greiðslukerfi - staðan

Daði Áslaugarson, deildarstjóri upplýsingatækni kom á fundinn og kynnti stöðuna á innleiðingu snertilausra greiðslna í Klappinu. Prófanir ganga vel og ef ekkert óvænt kemur upp ætti þessi virkni að vera virk á öðrum ársfjórðungi 2024. Töluverð seinkun hefur orðið á innleiðingu snertilausra greiðslna og hefur Strætó líst yfir óánægju sinni við FARA A/S sem kerfið er keypt frá.


7. Erindi til stjórnar.

Fulltrúi Flokks fólksins í velferðarráði Reykjavíkurborgar lagið fram tillögu sem send var stjórn Strætó til umsagnar varðandi að öryrkjum sé heimilt að kaupa afsláttarkort á fleiri farmiðasölustöðum í borginni.

Stjórn fól framkvæmdastjóra að svara erindinu í samræmi við umræður á fundinum.


8. Launamál

Umræður um launamál framkvæmdastjóra, stjórnarformanni var falið að vinna áfram með málið.

Magnús Örn Guðmundsson, formaður stjórnar vék af fundi fyrir næsta lið vegna hæfismála og Alexandra Briem varaformaður stjórnar tók við stjórn fundarins.


9. Útboð á akstri - staðan

Sigurður G. Jónsson, ráðgjafi frá Cowi og Guðmundur Siemsen, lögmaður tóku sæti undir þessum lið. Farið var yfir stöðuna og drög að minnisblað dagsett 15. mars 2024, frá Guðmundi. Farið var yfir kosti og galla hinna ýmsu kosta sem eru í stöðunni.

Framkvæmdastjóra var heimilað að halda áfram að vinna málið í samræmi við niðurstöðu minnisblaðs og umræðna á fundinum.

Boðað verður til eigendafundar í næstu viku þar sem staða málsins verður kynnt.


Önnur mál

Fleira ekki rætt, fundi slitið um 10:00.