Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu taka ákvarðanir um leiðakerfið í samráði við Strætó á höfuðborgarsvæðinu. Við uppbyggingu leiðakerfis Strætó er leitast við að nýta fjármagn á sem hagkvæmastan hátt þannig að það nýtist sem flestum.
Hvað er Nýtt leiðanet?
„Nýtt leiðanet“ er framtíðarsýn um heildstætt leiðanet almenningssamganga með borgarlínuvögnum og hefðbundnum strætisvögnum. Grunn áherslur leiðanetsins snúast um aukna tíðni og styttri ferðatíma en í núverandi leiðakerfi Strætó.
Stofnleiðir og almennar leiðir
- Stofnleiðanetið er skipulagt sem burðarásinn í Nýju leiðaneti og tilgangur þess verður að flytja mikinn fjölda farþega á sem stystum tíma á góðri tíðni. Þær stofnleiðir sem aka a.m.k. helming leiðar í innviðum Borgarlínu eru kallaðar Borgarlínuleiðir. Í Borgarlínuleið er gengið inn um allar dyr vagnsins og fargjald er greitt áður en stigið er í vagninn.
- Almennar leiðir verða á minni tíðni en stofnleiðir og munu þjóna hverfum sem ekki eru í göngufæri við biðstöðvar stofnleiða. Tilgangur almennra leiða er einnig að þjóna hverfum betur.
- Pöntunarþjónusta er ekki hluti af Nýju leiðaneti en þó er gert ráð fyrir að hún verði áfram til staðar. Með nýrri tækni í pöntunarþjónustu eru miklir möguleikar á að gera rekstur einstakra leiða hagkvæmari sem og bæta þjónustu við farþega með styttri biðtíma í stað stopullar tíðni t.d. á kvöldin og um helgar.
Þjónustutími lengdur
Gert er ráð fyrir að akstur á virkum dögum muni byrja klukkan sex á morgnana og hætta um klukkan eitt eftir miðnætti. Enn fremur er gert ráð fyrir að akstur vagna hefjist fyrr um helgar og tíðni verði aukin (með sérstaka áherslu á stofnleiðanetið) þannig að almenningssamgöngur verði raunhæfari valkostur fyrir fleiri.
Mun betra þjónustustig - stutt í næsta vagn
Miðað við tillögu að Nýju leiðaneti munu meira en þrefalt fleiri íbúar höfuðborgarsvæðisins búa innan 400 metra radíuss frá stoppistöð leiðar með a.m.k. 10 mínútna tíðni á háannatíma, eða 72% íbúa í stað 18% í núverandi leiðaneti.

Há-tíðni ásar
Í tillögu að Nýju leiðaneti verða svokallaðir há-tíðni ásar. Farþegar sem ferðast eftir þessum ásum geta gert ráð fyrir akstri vagna á a.m.k. 5 mínútna fresti. Það verður því mjög auðvelt að ferðast eftir þessum vegköflum og óþarfi að styðjast við tímatöflur.

Aukið sérrými
Uppbygging Borgarlínunnar er mjög mikilvægt skref í að bæta þjónustu almenningssamgangna því með sérakreinum og forgangi á gatnamótum mun ferðatími styttast og áreiðanleiki aukast. Allar leiðir geta nýtt innviði Borgarlínunnar og munu því sérrýmin gagnast fleiri leiðum en Borgarlínuleiðum.
Borgarlínuinnviðir verða hannaðir á þann hátt að bæði Borgarlínuvagnar og aðrir strætisvagnar geta ekið út úr sérrýminu og ferðast hluta leiðarinnar í blandaðri umferð.
Betri tíðni
Mikilvægt er að auka tíðni vagna til þessa að gera þjónustu almenningssamgangna aðgengilegri og þægilegri kost fyrir notendur.
Samkvæmt rannsóknum er aukin tíðni einn mikilvægasti þátturinn þegar kemur að ferðamátavali fólks.
Aukin tíðni:
- Styttir biðtíma.
- Eykur áreiðanleika.
- Auðveldar skiptingar milli leiða sem opnar á nýjar tengingar milli mismunandi staða á höfuðborgarsvæðinu.
Sú aukna tíðni sem felst í Nýju leiðaneti mun því auka frelsi íbúa til að komast á milli staða þegar þeim hentar á skilvirkan og umhverfisvænan hátt.
Í Nýja leiðanetinu er gert ráð fyrir að tíðnin verði eftirfarandi:
Tíðnin í Nýju leiðaneti | Á annatíma | Utan annatíma |
---|---|---|
Stofnleiðir | 7 - 10 mín fresti | 15 - 20 mín fresti |
Almennar leiðir | 15 - 20 mín fresti | 20 - 30 mín fresti |
Tímalína
Fyrsta áfangaskýrsla um Nýtt leiðanet var gefin út í desember 2019. Í kjölfarið voru allar ábendingar frá almenningi og hagsmunaaðilum skoðaðar og hluti þeirra greindur frekar. Þeirri úrvinnslu er nú lokið og var önnur áfangaskýrsla um Nýtt leiðanet gefin út í mars 2025.
Stefnt er að því að Nýtt leiðanet verði innleitt heildstætt þegar framkvæmdum við fyrstu lotu Borgarlínunnar lýkur. Áætluð lok fyrstu lotu er árið 2031.
Framundan eru framkvæmdir við fyrstu lotu Borgarlínunnar og mun leiðakerfið verða aðlagað að þeim framkvæmdum og þannig taka breytingum á framkvæmdatíma. Reynt verður að hafa breytingarnar í samræmi við Nýtt leiðanet.
Faghópur um leiðakerfismál
Faghópur um leiðakerfismál var skipaður af stjórn Strætó í febrúar 2019 og kom hann að mótum Nýs leiðanets.
Sæti í faghópnum eiga:
- Fulltrúar úr leiðakerfi Strætó
- Fulltrúar sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu
- Fulltrúi Vegagerðarinnar
- Fulltrúi Samtaka um bíllausan lífsstíl
- Fulltrúi Samgöngu- og sveitastjórnarráðuneytisins