Allir sem starfa í þágu Strætó mynda mannauð starfseminnar, hvort heldur þeir eru starfsmenn fyrirtækisins sjálfs eða annarra akstursaðila sem aka undir merkjum fyrirtækisins. Framtíðarsýn Strætó er að fyrirtækið verði eftirsóknarverður vinnustaður og dýnamískt þekkingarfyrirtæki.
Strætó leggur áherslu á að starfsfólk:
- Þekki hlutverk, stefnu og gildi fyrirtækisins
- Sýni drifkraft í störfum sínum með frumkvæði, kjark og þor að leiðarljósi
- Vinni vel saman að hagsmunum og framtíðarsýn Strætó og myndi þannig sterka liðsheild
- Skapi traust þeirra sem reiða sig á þjónustu Strætó og sýni áreiðanleika og ábyrgð í verki
Strætó leggur áherslu á, sem þjónustufyrirtæki, að hafa í þjónustu sinni starfsfólk sem býr yfir ríkri þjónustulund og hluttekningu, m.a. með því að skapa starfsfólki jákvætt og hvetjandi starfsumhverfi, efla starfsfólk og styrkja með markvissri þjálfun og starfsþróun og stuðla að virkni og ánægju starfsfólks. Allt starfsfólk ber sameiginlega ábyrgð á að skapa jákvæða og hvetjandi vinnustaðamenningu þar sem gagnkvæm virðing og starfsánægja er í fyrirrúmi.
Til að fylgja eftir stefnu þessari leggur Strætó áherslu á eftirtalda þætti í starfsemi sinni og rekstri
- Að skapa jákvæða og uppbyggjandi vinnustaðamenningu og ásýnd með því að laða að og halda í hæfileikaríkt og öflugt starfsfólk sem hefur menntun, þekkingu og hæfni sem nýtist í störfum Strætó.
- Að standa faglega að ráðningum og rækta ráðningarsamband í samræmi við verklag, lög og reglur.
- Að hlúa vel að þjálfun, fræðslu og starfsfærni með framsækinni og reglubundinni sí- og endurmenntun starfsmanna.
- Að stuðla að vinsamlegu og fjölskylduvænu starfsumhverfi með því að bjóða upp á sveigjanlegt vinnufyrirkomulag og fjölbreytni starfa.
- Að stuðla að sjálfstæði og frumkvæði í starfi með hvatningu til góðra verka.
- Að upplýsingagjöf og samskipti séu markviss og áhrifarík.
- Að bjóða upp á heilsusamlegt og hvetjandi vinnuumhverfi og félagslíf meðal starfsmanna er stuðlar að samkennd og virðingu meðal þeirra.
Árlega er tekið saman yfirlit yfir stöðu mannauðsmála.