Föstudaginn 14. mars 2025 var haldinn fundur í stjórn Strætó bs. og hófst hann kl. 07:30.
Mætt voru:
- Kristín María Thoroddsen (KMT)
- Örvar Jóhannsson (ÖJ)
- Magnús Örn Guðmundsson (MÖG)
- Andri Steinn Hilmarsson (ASH)
- Hrannar B Eyjólfsson (HBE)
- Dóra Björt Guðjónsdóttir (DBG).
Fundinn sat einnig Jóhannes Rúnarsson (JR) og Sigurborg Þórarinsdóttir (SÞ) sem ritaði fundargerð.
1. Árangursmat stjórnar
Framkvæmdarstjóri tilkynnti að spurningarlisti vegna árangursmat stjórnar yrði sent út í næstu viku.
2. Þjónustuúrbætur
Markús Vilhjálmsson, sviðsstjóri sölu-, markaðs og þjónustusviðs kom á fundinn og kynnti ýmis verkefni sem tengjast úrbótum á þjónustu Strætó. Má þar meðal annars nefna lausn við auðkenningu 11 ára og yngri, úttekt og aðlögun á notendaviðmóti greiðslukerfis, nýjar þjónustumælingar, hulduheimsóknir og viðamikið þjónustunámskeið. Þá var einnig farið yfir markaðsáherslur ársins 2025.
3. Ársreikningur 2024
Undir þessum lið tóku sæti Sturla Jónsson, endurskoðandi frá Grant Thorton, Sigrún Guðmundsdóttir fulltrúi frá endurskoðunarnefnd Strætó og Elísa Kristmannsdóttir, fjármálastjóri Strætó.
Fjármálastjóri kynnti ársuppgjör Strætó fyrir árið 2024. Sturla Jónsson, endurskoðandi fór yfir endurskoðunarskýrslu og ábendingar ytri endurskoðenda. Sigrún Guðmundsdóttir fylgdi eftir áliti endurskoðunarnefndar á ársreikningi 2024.
Rekstrarniðurstaða er jákvæð um rúmlega 203 m.kr. sem er betri en áætlun ársins gerði ráð fyrir. Gjöld hækka um tæp 2,4% milli ára og tekjur um tæplega 7% milli ára. Farþegatekjur eru undir áætlun, en framlag eigenda og aðrar tekjur eru yfir áætlun. Launagjöld og annar rekstrarkostnaður er undir áætlun en rekstur vagna og aðkeyptur akstur yfir áætlun. Reksturinn styrkist milli ára en eigið fé er enn neikvætt um tæpar 161 m.kr. Veltufé frá rekstri er rúmlega 500 m.kr. og handbært fé í lok árs um 367 m .kr.
Stjórn samþykkir ársreikning Strætó fyrir árið 2024 með rafrænni undirritun sinni.
4. Fjármál Strætó
Framkvæmdastjóri fór yfir stöðu fjármála. Handbært fé er ásættanlegt en svigrúm til fjárfestinga í nýjum vögnum er ekkert. Í ljósi þess að áreiðanleiki og stundvísi hafa versnað töluvert samhliða lækkandi hámarkshraða og aukinni umferð er ljóst að greiða þarf verktökum uppgjör vegna aksturs umfram tímatöflu, sem er uppgjörsgrunnur í dag. Framkvæmdastjóra var heimilað að gera upp umframakstur. Farið var yfir áætlaða þjónustuaukningu sem fjölgar vögnum í akstri hjá verktökum um 13 og hjá Strætó um 6. Mikil óvissa er um, til lengri tíma litið, hvort vagnar Strætó séu ekki of gamlir. Það er því nauðsynlegt að taka ákvörðun um hvað gera á varðandi stöðu vagnaflota Strætó.
Samhliða þjónustuaukningu þarf að byggja upp hleðsluinnviði og er gert ráð fyrir að hjá verktökum sé sá kostnaður um 80 m.kr. á árinu 2025, sem fjármagnað verði af auknu framlagi tengt Samgöngusáttmálanum.
Framkvæmdastjóri fór yfir kostnaðarskiptingarmódel sem gildir í dag og hvaða áhrif breyttar forsendur hafa í för með sér.
5. Pant akstursþjónusta
Sturla Halldórsson, deildastjóri Pant, sem sinnir akstursþjónustu fyrir fatlað fólk, fötluð skólabörn og eldri borgara hjá fjórum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu, fór yfir tölfræði ársins 2024. Jafnframt var farið yfir breytingar á gjaldskrá Pant og samnýtingu korta í Strætó og Pant.
Fundi slitið 9.40.