Fréttir
16. maí 2025

Strætó hættir að taka á móti reiðufé í vögnum 1. júní

Frá og með 1. júní næstkomandi verður ekki lengur hægt að staðgreiða fargjöld með reiðufé um borð í Strætó á höfuðborgarsvæðinu. Þetta á ekki við um landsbyggðarvagna þar sem áfram verður hægt að borga með reiðufé eða greiðslukorti (posakerfi).

Áfram verður hægt að kaupa fargjöld með reiðufé í móttöku Strætó, Hesthálsi 14.

Margir greiðslumöguleikar

Úrval greiðslumöguleika hefur aukist en nú er til dæmis hægt að greiða snertilaust með greiðslukorti um borð í öllum vögnum innan höfuðborgarsvæðisins en einungis 2,3% viðskiptavina greiða nú með reiðufé um borð í Strætó.

Hægt er að kaupa Klapp tíur og Klapp kort með reiðufé á sölustöðum Strætó en samhliða þessari breytingu verður sölustöðum fjölgað og frá og með 1. júní verður hægt að kaupa Klapp tíur og kort í flestum sundlaugum innan Reykjavíkur.

 

Greiðslumöguleikar í boði fyrir viðskiptavini:

  • Snertilausar greiðslur
  • Klapp kort
  • Klappið app
  • Klapp tíur

Vanti viðskiptavinum aðstoð vegna þessara breytingar er hægt að hafa samband við þjónustuver Strætó í síma 540 2700.