Frá og með 1. júní næstkomandi verður ekki lengur hægt að staðgreiða fargjöld með reiðufé um borð í Strætó á höfuðborgarsvæðinu. Þetta á ekki við um landsbyggðarvagna þar sem áfram verður hægt að borga með reiðufé eða greiðslukorti (posakerfi).
Áfram verður hægt að kaupa fargjöld með reiðufé í móttöku Strætó, Hesthálsi 14.
Margir greiðslumöguleikar
Úrval greiðslumöguleika hefur aukist en nú er til dæmis hægt að greiða snertilaust með greiðslukorti um borð í öllum vögnum innan höfuðborgarsvæðisins en einungis 2,3% viðskiptavina greiða nú með reiðufé um borð í Strætó.
Hægt er að kaupa Klapp tíur og Klapp kort með reiðufé á sölustöðum Strætó en samhliða þessari breytingu verður sölustöðum fjölgað.
Greiðslumöguleikar í boði fyrir viðskiptavini:
- Snertilausar greiðslur
- Klapp kort
- Klappið app
- Klapp tíur
Vanti viðskiptavinum aðstoð vegna þessara breytingar er hægt að hafa samband við þjónustuver Strætó í síma 540 2700.
Spurt og svarað
Er þetta löglegt? / Má Strætó neita að taka við reiðufé?
Já. Samkvæmt áliti Seðlabanka Íslands er það heimilt að neita að taka við reiðufé, enda séu aðrir greiðslumátar í boði.
Er þetta ekki brot á lögum um gjaldmiðil Íslands eða lögum um Seðlabanka Íslands?
Nei. Þau lög kveða einungis á um að peningaseðlar og mynt frá Seðlabanka séu lögeyrir í allar greiðslur hér á landi, en banna ekki að seljandi ákveði að nota aðra greiðslumáta. Staða gjaldmiðils sem lögeyris þýðir einungis að hann skuli vera endanlegur mælikvarði á verð í viðskiptum aðila.
Af hverju er þetta gert?
Einungis um 2,3% viðskiptavina greiða nú með reiðufé og er kostnaðurinn við umsýslu reiðufjárins talsverður. Markmiðið er að einfalda greiðsluferla en núna eru einnig fleiri greiðsluleiðir í boði en áður.
Hvað ef það verður rafmagnslaust eða netsambandslaust?
Ef um yrði að ræða alvarlegt eða langvarandi rafmagns- eða netsambandsleysi þar sem ekki virkaði að greiða með korti eða öðrum greiðslumáta um borð í Strætó, gæti stjórn Strætó ákveðið tímabundið að heimila reiðufé vegna aðstæðna. Þetta er metið í hverju tilviki fyrir sig.
Get ég verið nafnlaus? Ég vil ekki skilja eftir spor.
Já. Ef viðskiptavinur notar Klapp tíur sem keyptar eru með reiðufé, er ekki hægt að rekja notkun til viðkomandi. Einnig er hægt að skrá sig inn nafnlaust í Klapp appinu. Annars fylgist Strætó ekki með ferðum fólks í gegnum snertilausar greiðslur eða notkun á tímabilskortum/stökum miðum og engin greiðslukortanúmer vistast í kerfum Strætó.
Hvar er hægt að kaupa Klapp tíur með reiðufé?
- Í móttöku Strætó að Hesthálsi 14.
- Á sölustöðum Strætó, sjá hér.
- Í flestum sundlaugum í Reykjavík (frá og með 1. júní 2025).