Strætó leggur áherslu á að almenningssamgöngur séu öruggur og aðgengilegur ferðamáti fyrir öll.
Á undanförnum vikum hefur umræða átt sér stað í samfélaginu um upplifanir hinsegin fólks, meðal annars í sjónvarpsþættinum Hatur á RÚV, þar sem var sérstaklega fjallað um upplifun hinsegin einstaklinga af almannarýmum. Í kjölfar þessarar umræðu hefur Strætó gripið til aðgerða og hafið samstarf við Flotann – flakkandi félagsmiðstöð og Hinsegin félagsmiðstöð Samtakanna 78 og Tjarnarinnar.
Markmið samstarfsins er að tryggja að allir farþegar upplifi sig velkomna og örugga um borð í strætisvögnum með sérstaka áherslu á yngri farþega og ungmenni.
Samstarfið snýr að því að:
- leggja sérstaka áherslu á að öll eru velkomin um borð
- hvetja bæði starfsfólk og farþega til að láta vita ef eitthvað kemur upp
- bjóða upp á fræðslu fyrir starfsfólk Strætó
- skerpa á verklagi til að bregðast hratt og rétt við atvikum
Strætó vill vera raunverulegur valkostur fyrir öll og leggur áherslu á að almenningssamgöngur séu öruggur ferðamáti. Á næstu vikum verða næstu skref samstarfsins útfærð í sameiningu og kynnt fyrir almenningi.
Besta leiðin á að vera fyrir öll.