Nýju rafvagnar Strætó eru komnir í akstur en þeir byrjuðu að keyra í morgun. Þetta eru níu vagnar af tegundinni Yes-EU (CRRC 8m) og koma þeir frá Kína eins og eldri rafvagnar Strætó sem hafa reynst vel. Það er engin olíumiðstöð í vögnunum og verða þeir kyntir með rafmagni. Þeir eru því mjög umhverfisvænir og eru góð viðbót við flota Strætó og í samræmi við stefnu Strætó um kolefnislausan flota árið 2030.

„Vagnarnir eru frábær viðbót við flota Strætó og ánægjulegt að sjá þá fara af stað,“ segir Jóhannes S. Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó. „Með þessum nýju rafvögnum eru nú rúmlega 30% af flota Strætó kolefnislaus sem er gott fyrir umhverfið og stefnir Strætó á að auka enn frekar við umhverfisvæna kosti á næstu árum.“

Vagnarnir munu aka leiðir 8, 22, 23 og 31og fyrir leið 22 í Garðabæ þýðir þetta betra aðgengi þar sem rafvagnarnir eru stærri og notendavænni en þeir sem óku leiðina áður. Settar hafa verið upp hleðslustöðvar bæði upp á Hesthálsi 14 og í Ásgarði í Garðabæ og eru vagnarnir hlaðnir í lok eða á milli aksturs.

Hrannar Bragi  Eyjólfsson, stjórnarmaður Strætó frá Garðabæ, segir þetta vera afskaplega ánægjulegan áfanga. „Með nýjum rafvögnum fáum við bætt og aukið aðgengi meðal annars fyrir fólk sem þarf að nota hjólastól en einnig barnavagna og hjól svo dæmi séu tekin. Við erum mjög ánægð að geta boðið upp á umhverfisvænan valkost í umhverfisvænu samfélagi.“

Nýju rafvagnarnir eru byrjaðir að keyra

Í tilefni dagsins heimsóttu Almar Guðmundsson, bæjarstjóri Garðabæjar, Hrannar Bragi Eyjólfsson, stjórnarmaður Strætó frá Garðabæ og Jóhannes S. Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó nýju hleðslustöðina í Garðabæ fyrir nýju vagnana