Klappið hlaut sérstaka viðurkenningu fyrir greiðslukerfi á viðburðinum Transport Ticketing Global í vikunni. Viðburðurinn er leiðandi á heimsvísu og er stærsti viðburður heims fyrir almenningssamgöngur þegar kemur að rafrænum lausnum greiðslukerfa. Í ár var hann haldinn í Olympia London, dagana 7.-8. mars. Sjá: https://www.transport-ticketing.com/

Nýja greiðslukerfi Strætó var meðal sjö tilnefndra og fékk sérstök verðlaun – „Highly Commended“ –  í flokknum besta greiðslukerfi almenningssamgangna fyrir minna en 200 þúsund daglegar ferðir. Tilgangur verðlaunanna er að veita framúrskarandi lausnum á sviðinu viðurkenningu og veita rekstraraðilum og stofnunum almenningssamgangna og samstarfsaðilum þeirra  athygli fyrir greiðslukerfi sem hefur verið hleypt af stokkunum á síðustu 2 árum.

„Þessi viðurkenning er sérlega ánægjuleg því dómendur eru fremstu sérfræðingar heims á þessu sviði og aldrei hafa verið sendar inn fleiri tilnefningar. Hún sýnir okkur að við erum á réttri leið og hvetur okkur til að halda ótrauð áfram á þeirri löngu vegferð að gera greiðslukerfi Strætó að frábærri lausn fyrir bæði farþega og alla þá sem vinna við að gera almenningssamgöngur að góðum valkosti fyrir fólk á ferðinni. Enda eru sérlega spennandi nýjungar í farvatninu – meðal annars að greiða beint með snertilausu greiðslukorti og greiðsluþak,„  segir Daði Áslaugarson, yfirmaður upplýsingatæknimála hjá Strætó.

Klappinu var hleypt af stokkunum 16. nóvember 2021 og gátu þá viðskiptavinir skannað miðana sína með appi, Klapp-korti eða pappakorti um borð í vögnum auk þess að auðvelda farþegum kaup á vörum, aðgang að afsláttum og yfirsýn yfir notkun sína á Mínum síðum. Kerfið er öruggara með tilliti til persónuverndar fyrir notendur en fyrri lausnir og býður upp á mikla möguleika til framtíðarþróunar.

Starfsfólk Strætó er þakklátt fyrir viðurkenninguna og stefnir ótrautt áfram að gera Klappið sem best fyrir viðskiptavini Strætó.