Strætó og Blindrafélagið undirrituðu í dag samstarfssamning sín á milli um uppsetningu NaviLens kóða á öllum biðstöðvum og vögnum Strætó á höfuðborgarsvæðinu. Um er að ræða algjöra byltingu fyrir blinda og sjónskerta í aðgengi að upplýsingum um ferðir strætisvagna í rauntíma, án efa það stærsta síðan hljóðkerfi var sett upp í vögnunum fyrir rúmum 10 árum síðan, sem gefur til kynna hvar vagninn stoppar næst.
Kóðarnir verða einnig settir á strætisvagnana sjálfa og mun það hjálpa blindum og sjónskertum að vita um hvaða vagn er að ræða og í hvaða átt hann er að fara án þess að þurfa að reiða sig á aðstoð annarra.
Strætó mun leiða verkefnið og verða kóðarnir á ábyrgð og í eigu Strætó en félags- og vinnumarkaðsráðherra og innviðaráðherra skrifuðu í byrjun árs undir samning við Blindrafélagið vegna samstarfsverkefnis félagsins og Strætó um innleiðingu á kóðunum og veittu til þess styrk 2.000.000 kr. hvor.
Ljóst er að verkefni af þessari stærðargráðu tekst ekki nema með samstilltu átaki allra aðila sem koma með einhverjum hætti að rekstri biðstöðva og strætisvagna og hafa allir tekið vel í að greiða fyrir þeirri vinnu sem mun þurfa til að koma upp öllum kóðum.
Hlynur Þór Agnarsson, ráðgjafi frá Blindrafélaginu sem kemur að verkefninu segir að bæði sé NaviLens lausnin spennandi og jafnframt tímabært skref í að bæta aðgengi blindra og sjónskertra að upplýsingum um komutíma vagna Strætó. „Ég er ánægður með þá framsýni sem Strætó sýnir því ég efast ekki um að eftir einhver ár verða komnir upp svona kóðar á mun fleiri stöðum sem mun bæta aðgengi blindra og sjónskertra að upplýsingum í umhverfinu og auka verulega við sjálfstæði þeirra. Þetta er í fyrsta skipti hérlendis sem upplýsingar í almenningssamgöngum í umhverfismerkingum eru aðgengilegar þeim sem ekki geta lesið þær.„
Jóhannes S. Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó sagði við undirritunina að hann væri stoltur að Strætó væri hluti af jafn mikilvægu verkefni og því að stórbæta aðgengi blindra og sjónskerta í Strætó. Um væri að ræða byltingu í aðgengi en stjórn Strætó setti sér stefnu um bætt aðgengi fyrir alla og er þetta fyrsti áfanginn á þeirri vegferð.
Hvað eru NaviLens kóðar?
NaviLens kóðar virka á svipaðan hátt og QR kóðar. Hins vegar er hægt að greina NaviLens kóða úr 12 sinnum meiri fjarlægð en QR kóða. Einnig virka NaviLens merki betur í minni birtu og hægt er að nota allt sjónsvið myndavéla snjalltækja til að greina þá, ólíkt QR kóðunum sem krefjast meiri nákvæmni.
Notendur nota síðan NaviLens app til að fá upplýsingar um staðsetningu og fjarlægð frá kóðanum auk þeirra upplýsinga sem hann hefur að geyma. Þannig virkar NaviLens bæði til að staðsetja biðstöðvar og veita upplýsingar um hvaða leiðir ganga þar og hve langt er í næsta vagn í rauntíma. Kóðarnir virka eins á vagnana sjálfa, staðsetja þá, greina frá um hvaða leið ræðir og í hvaða átt vagninn er að fara.
Engu að síður geta kóðarnir nýst hverjum sem er, því sjáandi einstaklingar geta notað appið NaviLens GO til að kalla upp sömu rauntímaupplýsingar á fljótlegan og einfaldan hátt. Einnig þýðir NaviLens upplýsingar sjálfvirkt á yfir 33 mismunandi tungumál og gerir það sjálfvirkt eftir því á hvaða tungumál hvert snjalltæki er stillt á. Þetta gerir appið að góðum kosti fyrir fólk sem er ekki með íslensku sem fyrsta tungumál og ferðamenn. Mögulegur notendahópur stækkar einnig til muna ef horft er til þeirra sem eiga erfitt með lestur eins og t.d. lesblinda og þau sem eiga erfitt með að lesa í tímatöflur.