Fréttir
2. júní 2023

Alþjóðleg verðlaun fyrir framsetningu á leiðarkerfi

Strætó og Hönnunarstofan Kolofon fengu á dögunum verðlaun í alþjóðlegu hönnunarsamkeppninni IIIDawards, sem haldin er af International Institute for Information Design — samtökum upplýsingahönnuða.

Verðlaunin eru í flokknum Traffic and Public Transport og voru veitt fyrir heildarframsetningu á uppfærðu leiðarkerfi og merkingum Strætó. Verkefnið nær til allra merkinga á stoppum, endurbætta vefsíðu og leiðarkerfisupplýsinga í öppum.

Verðlaunin, sem eru veitt á 3 ára fresti, voru nú afhent í fimmta sinn. Keppt er í 15 ólíkum flokkum, þar sem hver einblínir á ýmist vettvang upplýsingahönnunar eða aðferð við framsetningu. The International Institute of Information Design eru alþjóðleg samtök sem stofnuð voru árið 1986. Samtökin er helsti vettvangur upplýsingahönnunar, þar sem markmiðið er að þróa saman betri og skýrari framsetningu upplýsinga og gagna þvert á starfsgreinar, með rannsóknum og kynningum á fræðunum.

„Okkur þykir mjög vænt um að fá viðurkenningu eins og þessa, fyrir þetta mikilvæga verkefni, sem hefði aldrei getað orðið nema með góðu og nánu samstarfi okkar og Strætós. Við erum mjög þakklát fyrir það.“ segir Hörður Lárusson, hjá Kolofon, sem tók á móti verðlaununum í Vínarborg 24. maí síðastliðinn.

Vefsíða verðlaunanna: https://www.iiidaward.net/
Vefsíða IIID: https://www.iiid.net/