KLAPP er nýtt greiðslukerfi fyrir Strætó á höfuðborgarsvæðinu og það verður formlega innleitt 16. nóvember 2021.
Fyrirmynd kerfisins er þekkt í almenningssamgöngum um allan heim, þar sem kort eða farsími er settur upp við skanna þegar fargjald er greitt í vagninum.
Það eru 3 greiðsluleiðir í Klappinu: KLAPP kort, KLAPP app og KLAPP tía.
KLAPP kort
KLAPP kort eru snjallkort sem þú leggur upp við skanna um borð í Strætó til þess að greiða fargjaldið. Þú getur verslað KLAPP kort inn á straeto.is og hjá öllum söluaðilum Strætó á höfuðborgarsvæðinu. Fyllt er á KLAPP kortið í gegnum vefaðgang notenda á „Mínum síðum“.
KLAPP app
Með KLAPP appinu getur þú notað snjallsímann þinn til að kaupa staka miða eða tímabilskort fyrir Strætó á höfuðborgarsvæðinu. Þú getur sótt Klappið inn á App Store og Google Play.
KLAPP tía
KLAPP tía er pappaspjald með 10 miðum fyrir annaðhvort fullorðna, ungmenni eða aldraða. Þessi vara kemur í stað pappírs strætómiðanna. Pappaspjaldið er með kóða sem þú skannar um borð í vagninum. Á skannanum kemur fram hvað eru margar ferðir eftir á spjaldinu. Þú getur keypt KLAPP tíu hjá öllum söluaðilum Strætó á höfuðborgarsvæðinu og í vefverslun Strætó.
Ný gjaldskrá
Samhliða innleiðingu á Klappinu þá verða einnig gerðar breytingar á gjaldskrá Strætó. Markmið breytingarinnar er fyrst og fremst að einfalda gjaldskrána og gera öllum hópum kleift að kaupa mánaðarkort á hagstæðu verði. Hér má sjá nýju gjaldskrána:
Stakir miðar | Verð | Afsláttur |
Fullorðnir | 490 kr. | 0% |
Ungmenni, 12-17 ára | 245 kr. | 50% |
Aldraðir, 67 ára og eldri | 245 kr. | 50% |
Öryrkjar | 147 kr. | 70% |
Börn, 11 ára og yngri* | 0 kr. | 100% |
Mánaðarkort | Verð | Afsláttur |
Fullorðnir | 8.000 kr. | 0% |
Ungmenni, 12-17 ára | 4.000 kr. | 50% |
Aldraðir, 67 ára og eldri | 4.000 kr. | 50% |
Öryrkjar | 2.400 kr. | 70% |
Börn, 11 ára og yngri* | 0 kr. | 100% |
Árskort | Verð | Afsláttur |
Fullorðnir | 80.000 kr. | 0% |
Ungmenni, 12-17 ára | 40.000 kr. | 50% |
Aldraðir, 67 ára og eldri | 40.000 kr. | 50% |
Öryrkjar | 24.000 kr. | 70% |
Börn, 11 ára og yngri* | 0 kr. | 100% |
Klapp tía (10 miða passi) | Verð | Afsláttur |
Fullorðnir | 4.900 kr. | 0% |
Ungmenni, 12-17 ára | 2.450 kr. | 50% |
Aldraðir, 67 ára og eldri | 2.450 kr. | 50% |
*Börn þurfa ekki að skanna farmiðla um borð í Strætó.
Hvað verður um gamla greiðslukerfið?
Samhliða nýju greiðslukerfi þá verður gamla greiðslukerfið að einhverju leyti til staðar í eitt ár.
Strætó appið
Þann 16. nóvember verður ekki lengur hægt að kaupa nýja miða eða mánaðarkort í Strætó appinu. Viðskiptavinum verður í staðinn vísað í KLAPP appið.
Viðskiptavinir sem eru með virk tímabilskort í Strætó appinu skulu halda áfram að nota þau og leyfa gildistíma þeirra að renna út áður en skipt er yfir í Klapp greiðslukerfið.
Viðskiptavinir sem eru með virka áskrift munu klára þriggja mánaða hringinn sinn. Eftir þriðja „fría mánuðinn“ verður ekki lengur hægt að kaupa nýja áskrift.
Þeir sem eiga ónotaða miða í Strætó appinu þann 16. nóvember 2021 hafa frest í eitt ár til að nota þá.
Til að byrja með verður núverandi Strætó app áfram notað til þess að leita að ferðum eða fylgjast með vögnum í rauntíma. Það verður einnig áfram hægt að kaupa landsbyggðarmiða í Strætó appinu.
Pappírs farmiðar
Í stað pappírs farmiðanna kemur ný vara sem heitir KLAPP tía.
KLAPP tía er pappaspjald með 10 miðum fyrir annaðhvort fullorðna, ungmenni eða aldraða. Pappaspjaldið er með kóða sem er skannaður um borð í vagninum. Á skannanum kemur fram hve margar ferðir eru eftir á spjaldinu. Þú getur keypt KLAPP tíu hjá öllum söluaðilum Strætó á höfuðborgarsvæðinu eða inn á straeto.is.
Það verður áfram hægt að greiða með pappírs farmiðum um borð í Strætó á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni þangað til 1. mars 2022.
Viðskiptavinir sem vilja skipta gömlum farmiðum yfir í inneign í KLAPP greiðslukerfinu hafa frest til 16. mars 2022 til að gera það.
Prentuð Strætó kort
Viðskiptavinir sem eru með virk tímabilskort skulu halda áfram að nota þau og leyfa gildistíma þeirra að renna út áður en skipt er yfir í Klapp greiðslukerfið.
Reiðufé
Áfram verður hægt að greiða með reiðufé þar til annað verður tilkynnt. Vagnstjórar geta ekki gefið til baka. Öryrkjar munu ekki geta greitt afsláttarfargjald með reiðufé. Þeir geta hins vegar fengið 70% afslátt í Klapp greiðslukerfinu.